Tæknikaffi | Gerðu þitt eigið hlaðvarp!

Kompan

Langar þig að læra á tækin í Kompunni og búa til þinn eigin hlaðvarpsþátt?

Borgarbókasafnið | Menningarhús Grófinni
Þriðjudaginn 20. nóvember kl. 17:30-19:00

Hefur þú eitthvað að segja sem þú vilt deila með umheiminum? Gerðu þá þinn eigin hlaðvarpsþátt! Í fyrsta Tæknikaffi Borgarbókasafnsins fara tækniséníin okkar, þeir Ingi Þórisson, hljóðmaður, og Björn Unnar Valsson, vefstjóri, yfir öll helstu tæknilegu atriðin sem þarf að huga að áður en hlaðvarpsþáttur er tekinn upp og settur á netið. 

Tæknikaffið fer fram á 2. hæð í Borgarbókasafninu Grófinni, við hliðina á Kompunni. Kompan er lítið hljóðver tileinkað hlaðvarpsupptökum og er innréttað með mörgum hillumetrum af fallegum bókum sem bæta hljóðvistina. Gestum bókasafnsins gefst kostur á að bóka Kompuna og nota upptökubúnað safnins fyrir hlaðvarpsupptökur þeim að kostnaðarlausu. 

Farið verður yfir grunnatriðin í upptökum í búnaði Kompunnar auk þess sem kennt verður á hljóðvinnsluforritið Reaper sem gestir geta notað til að klippa og vinna þáttinn sinn í Kompunni. Að því loknu verður bent á nokkrar leiðir til að koma þættinum í loftið og gestirleiddir í gegnum ferlið. Hver er besta leiðin fyrir byrjendur að taka upp og hver eru algengustu mistökin? Þetta og margt fleira verður rætt í þessu fyrsta Tæknikaffi Borgarbókasafnsins. 

Tæknikaffið er ekki hugsað fyrir sérfræðinga heldur alls kyns fólk sem langar að sækja sér fræðslu og innblástur í notalegu umhverfi og kynna sér áhugaverðar tækninýjungar. Við tökum vel á móti ykkur, hvort sem þið eruð algjörir byrjendur eða lengra komin!

Frítt inn! Skráning fer fram HÉR.

Dagsetning viðburðar: 

Þriðjudagur, 20. nóvember 2018

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

17:30

Viðburður endar: 

19:00