Heimspekikaffi og leiðsögn | Innlit í Brennu-Njáls sögu

Njáll, Bergþóra, Gunnar og Hallgerður

Heimspekikaffi í Grófinni með leiðsögn

Sunnudaginn 3. mars, kl 14:00-16:00
Borgarbókasafnið | Menningarhús Grófinni

 

Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Kristín Ragna Gunnarsdóttir myndlistarmaður og rithöfundur ætla að spá í valdar persónur í Brennu-Njáls sögu út frá lífsgildum og fyrirmyndum í heimspekikaffi, að þessu sinni í Grófinni,  sunnudaginn 3. mars kl 14.

Hvers konar fyrirmyndir eru persónur í Brennu-Njálssögu og getum við sett okkur í spor Njáls, Gunnars og Hallgerðar? Gunnar á Hlíðarenda var seinþreyttur til vandræða en bregst ókvæða við þrálátri ógn. Njáll er ráðsnjall og gæti verið fyrirmynd nútímaráðgjafa. Hallgerður er hugrökk og lætur ekki kúga sig.
Gunnar Hersveinn og Kristín Ragna munu ræða ýmsa þætti Njálu en mannkostir og lestir Íslendinga fyrri alda, Hávamál og norræn goðafræði koma einnig við sögu í spjalli þeirra.

 

Að þessu sinni verða gildi fyrri kynslóða í brennidepli en nýlega opnaði sýning Kristínar Rögnu og Gagarín, Ertu alveg viss? í Borgarbókasafninu í Grófinni - sem er stutt innlit í Brennu-Njáls sögu þar sem þessari ástsælu Íslendingasögu er miðlað á nýstárlegan hátt.
Meira um sýninguna hér.

Kristín Ragna hefur í tuttugu ár unnið með atburði og persónur úr norrænni goðafræði og Íslendingasögunum. Hún hefur gert efnið aðgengilegt og lifandi, vakið samræður og áhuga um þær. Hún er höfundur Njálurefilsins á Sögusafninu á Hvolfsvelli sem felst í því að sauma Brennu- Njálssögu á hördúk og mun hann verða um 90 metra langur. 

Kristín Ragna hefur skrifað átta bækur fyrir börn og greinar í tímarit. Hún hefur m.a. verið tilnefnd fyrir verk sín til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Vestnorræna  ráðsins, Fjöruverðlaunanna og In Other Words þýðingarverðlaunanna. Hún  fékk Dimmalimm - íslensku myndskreytiverðlaunin fyrir Örlög guðanna sem hún gerði með Ingunni Ásdísardóttur og Hávamál sem hún vann með Þórarni Eldjárn.

Gunnar Hersveinn hefur umsjón með dagskránni og leiðir gesti í lifandi umræðu um málefnin á aðgengilegan hátt. Hann hefur m.a. skrifað bækurnar Gæfuspor, Orðspor, Þjóðgildin og Hugskot – skamm-, fram- og víðsýni ásamt Friðbjörgu Ingimarsdóttur.

Verið velkomin á Heimspekikaffi, öll velkomin og frítt inn á meðan húsrúm leyfir.

Frekari upplýsingar veitir: 

Guðrún Baldvinsdóttir
gudrun.baldvinsdottir [at] reykjavik.is
S: 6616178

Dagsetning viðburðar: 

sunnudagur, 3. mars 2019

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

14:00

Viðburður endar: 

16:00