Til myndhöfunda | Skráning hafin á farandsýninguna Þetta vilja börnin sjá

Öllum myndhöfundum sem gefa út bækur á árinu 2018 er gefinn kostur á að sýna verk úr bókum sínum á farandsýningunni Þetta vilja börnin sjá sem verður opnuð í Gerðubergi sunnudaginn 20. janúar 2019. Sýningin fer á flakk um landið þegar hún verður tekin niður í Gerðubergi. Skilyrði til þátttöku í sýningunni og keppni til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar eru eftirfarandi:

  • að barnabækurnar séu gefnar út á árinu 2018 og ekki sé um endurútgáfu að ræða
  • að barnabækurnar séu gefnar út af íslenskri útgáfu, óháð þjóðerni listamanns
  • að myndhöfundar bókanna ráði sjálfir yfir höfundarrétti mynda sinna og hafi ekki selt hann áfram til útgefenda

Verðlaunin eru þrískipt og verða þau afhent fyrir bestu frumsömdu barnabókina á íslensku, fyrir bestu íslensku þýðinguna á barnabók og fyrir bestu teikningar í barnabók.
Hefðinni samkvæmt verða fimm aðilar í hverjum flokki tilnefndir til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar við athöfn í Gerðubergi í byrjun mars og verðlaunin verða síðan afhent síðasta vetrardag, miðvikudaginn 17. apríl 2019 - og þá í 47. skipti. Athöfnin er í boði borgarstjóra og fer fram í Höfða.

Þeir myndhöfundar sem vilja taka þátt í sýningunni Þetta vilja börnin sjá eru beðnir um að staðfesta þátttöku með því að senda póst á Guðrúnu Dísi Jónatansdóttur, deildarstjóra fræðslu og miðlunar, hjá Borgarbókasafninu eigi síðar en fimmtudaginn 20. desember 2018.
Netfangið er: syningar [at] borgarbokasafn.is.

Þátttakendur eru beðnir um að láta eftirfarandi upplýsingar koma fram þegar tilkynnt er um þátttöku í sýningunni:

  • Fullt nafn myndskreytis og höfundar
  • Heimilisfang
  • Netfang og símanúmer
  • Titill bókar/bóka
  • Útgefandi
  • Upplýsingar um tryggingarverðmæti myndverka

Miðað er við að hver bók fái u.þ.b.  90 cm breitt og 120 cm hátt veggrými til umráða. Ekki er gert ráð fyrir texta með myndunum því bækurnar munu liggja frammi. Myndhöfunda þurfa að sjá til þess að útgefandi skili inn 1-2 eintökum af bókinni til að stilla fram með verkunum á sýningunni.

Þátttakendur skulu koma með myndirnar í Gerðuberg eigi síðar en mánudaginn 10. janúar 2019. Eftir þann tíma verður ekki tekið við fleiri verkum á sýninguna.

Gerð er krafa um vandaðan frágang á myndverkum og áskilur Borgarbókasafnið sér rétt til að hafna verkum sé frágangur ekki fullnægjandi.

Nánari upplýsingar veitir:

Guðrún Dís Jónatansdóttir
Deildarstjóri fræðslu og miðlunar
Netfang: gudrun.dis.jonatansdottir [at] reykjavik.is

 

 

.