Sýning á verkum Kristbergs Péturssonar

Sýning á verkum Kristbergs Péturssonar

Borgarbókasafn | Menningarhús Gerðubergi
25. nóvember 2017 - 14. janúar 2018

Á sýningunni verða ný verk unnin á liðnum mánuðum í ýmsa miðla. Það eru olíumálverk, vatnslitamyndir, grafíkmyndir, teikningar og þrívíð verk sem eru sérstaklega unnin fyrir þessa sýningu.

Þessi verk eru unnin í framhaldi af verkunum  sem sýnd voru í Hafnarborg 2016. Sú sýning samanstóð af olíumálverkum, vatnslitamyndum og ljóðum. Aðspurður um verk sín segir Kristbergur að nú sé farið að örla á textabrotum og orðum sem gægjast fram úr abstrakt myndmálinu á myndfletinum. Verkin samanstandi því af skrift og teikningu og hafi þróast smám saman frá því að vera drög að ljóðum yfir í myndverk. Í olíumálverkunum teflir hann saman tveimur gjörólíkum nálgunum; annarsvegar mörgum umferðum af málningu og svo hinni hröðu aðferð skriftarinnar. Olíuverkin eru sem fyrr byggð upp af mörgum lögum sem oft eru pússuð niður í tilraun hans til að skilja eftir spor fyrri tíðar áður en nýjum lögum er bætt við. Svipaðrar tihneigingar í vinnuaðferð gætir einnig í öðrum verkum á sýningunni.

Kristbergur útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið
1983 og á árunum 1985-1988 stundaði hann nám við Ríkisakademíuna í Amsterdam. Hann hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum bæði hér heima og erlendis. Kristbergur kenndi við MHÍ á árunum 1989-2000 og hefur haldið fjölmörg námskeið í teikningu og málun. 
Verk eftir hann eru í eigu opinberra listasafna og hann hefur fjórum sinnum hlotið starfslaun listamnanna. Hann er meðlimur í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og í nýjasta tölublaði Störu, rits SÍM, er viðtal við hann auk þess sem verk hans prýða forsíðuna.

Nánari upplýsingar veitir:
Ninna Margrét Þórarinsdóttir
ninna.margret.thorarinsdottir [at] reykjavik.is
Sími: 411 6115

 

 

Dagsetning viðburðar: 

Laugardagur, 25. nóvember 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

10:00

Viðburður endar: 

16:00