Rafbókasafnið um allt land

Almenningsbókasöfn um allt land bjóða nú lánþegum sínum aðgang að Rafbókasafninu sem þýðir að allir landsmenn geta nú fengið aðgang að tæplega 4000 titlum. Rafbókasafnið var opnað þann 30. janúar 2017 og stóð þá einungis lánþegum Borgarbókasafnsins til boða. Fyrsta júní sl. bættust svo 13 aðildarsöfn við og með þessari nýjustu viðbót eru aðildarsöfnin orðin 62 talsins.  

Í Rafbókasafninu eru rúmlega 3.000 rafbækur og 600 hljóðbækur, flestar á ensku í formi rafbóka. Hlutur hljóðbóka fer þó ört vaxandi, enda njóta þær sívaxandi vinsælda. Líkt og á öðrum bókasöfnum er safnkosturinn fjölbreyttur; en þar má finna skáldverk, fræðirit og rit almenns efnis, bæði nýtt efni og klassík.

Vonir standa til að fljótlega muni íslenskar rafbækur bætast í safnið.

Raf- og hljóðbækurnar má lesa og hlusta á vef safnsins, eða í snjalltækjum með smáforritunum Overdrive eða Libby. Þannig geta lesendur safnsins lesið sínar bækur hvar og hvenær sem er og hafa því í raun heilt bókasafn í vasanum. Rafbókasafnið er alltaf opið og þar eru engar sektir, því kerfið sér sjálft um að skila bókum þegar lánstími er útrunninn.

Á heimasíðu Rafbókasafnsins er að finna allar nánari upplýsingar og svo vitanlega á aðildarsöfnum Rafbókasafnsins um land allt.

Gleðilega jólalesningu!