Ljóðakort Reykjavíkur

Ljóðakort Reykjavíkur var opnað þann 1. október 2013, í tengslum við setningu Lestrarhátíðar í Reykjavík sem var í það skipti helguð borgarljóðum og Reykjavíkurljóðum. Kortið er til þess gert að ljóðunnendur geti fundið fleygum línum fastan stað í borgarlandslaginu og lesið sig í gegnum stræti og torg. – Ekki ósvipað því sem þekkja má af systurkortinu, Íslandskorti bókmenntanna.

Hver einasti punktur á kortinu táknar eitt ljóð, með því að smella á hann færðu upp mynd af ljóðinu eins og það kemur fyrir á síðu ljóðabókarinnar. Þar birtist einnig titill ljóðsins, nafn höfundar og frekari upplýsingar, og loks tengill til að stækka myndina af ljóðinu.

Hægt er að þysja inn eða út og hliðra kortinu til með hnöppunum í efra vinstra horni kortsins.

Ljóðakortið er vitaskuld ekki tæmandi og enn í vinnslu. Ertu með ljóð í huga sem hægt er að nálgast á útgefnu formi, og hægt er að finna skýran stað á kortinu? Sendu þá ábendingu á póstfangið ragna.solveig.gudmundsdottir@reykjavik.is.

Smelltu hér til að opna Ljóðakort Reykjavíkur í nýjum glugga.

 

Göturnar eru fullar af ljóði
og bílarnir komast ekki áfram
en gæla þófum sínum við malbikið
flosmjúkt.

Göturnar eru fullar af fólki
sem situr á tröppum og rennusteinum
og faðmast og dansar,
segir sögur og fer með stökur.

Brot úr „Göturnar eru fullar af ljóði“ eftir Einar Ólafsson,
úr bókinni Sólarbásúnan (1986)