Karlarnir í Kringlunni | 21.9.- 27.10.

Karlarnir í Kringlunni

Sigurður Petersen sýnir tréútskurðarverk sín

Borgarbókasafnið | Menningarhús Kringlunni
21. september - 27. október 2017

 

Verið velkomin á opnun sýningarinnar Karlarnir í Kringlunni í Borgarbókasafninu Kringlunni fimmtudaginn 21. september kl. 17 . Á sýningunni verða ýmsir karlar, skornir út í tré, eftir Sigurð Petersen.
Léttar veitingar og allir velkomnir.

Sigurður Petersen er fæddur 1945. Hann ólst upp á Stokkseyri, vann þar við almenn verkamannastörf, en fór 18 ára á sjóinn og starfaði á fiskiskipum. Lengst af var hann hjá Skipadeild SÍS og Samskipum, sem stýrimaður og skipstjóri. Hann hætti sjómennsku árið 2000 og vann við ýmis stjórnunarstörf hjá Samskipum þar til hann fór á eftirlaun árið 2014. 

Þegar Sigurður hafði verið nokkur ár í landi, fór hann að reyna fyrir sér að tálga, en hann hefur alla tíð heillast af handverki, sérstaklega útskurði og skúlptúrum unnum úr tré. Þetta varð síðan að tómstundastarfi og hefur Sigurður sótt fjölmörg námskeið bæði í útskurði og trérennsli. Hann hefur vinnuðastöðu heima í bílskúrnum, sem gjarnan kallaður er Gluggagalleríið af nágrönnum Sigurðar. Efniviðurinn er tré og trjágreinar, mest birki en einnig lítilsháttar rekaviður og linditré. Fyrirmyndir eru sóttar í sögu alþýðu, og einnig víkinga og þjóðsagna og ævintýra.

Karlarnir í Kringlunni
Karlarnir, sem eru til sýnis í Borgarbókasafninu Kringlunni, eru kallaðir „gaflarar“ en snemma á síðustu á öld, þegar bátar voru minni en í dag og landróðrar voru mest stundaðir, var veðurlag oft þannig að óvíst var hvort fært væri á sjóinn. Þá biðu sjómennirnir oft tímunum saman eftir því að ákvörðun væri tekin um hvort róið yrði. Þetta var kalla að vera í „vomum“. Lítið var um skjól við sjávarsíðuna og hímdu menn þá undir göflum fiskverkunnarhúsa í leit að skjóli. Þessir menn voru stundum kallaðir “gaflarar” í hálfkæringi.

Nánari upplýsingar:

Hildur Baldursdóttir
hildur.baldursdottir [at] reykjavik.is
s. 5806200
 

 

Dagsetning viðburðar: 

Fimmtudagur, 21. september 2017

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

17:00

Viðburður endar: 

18:00