Heimspekikaffi | Hefur svefn áhrif á hamingju?

Erla Björnsdóttir Heimspekikaffi Gerðuberg Gunnar hersveinn

Heimspekikaffi | Hefur svefn áhrif á hamingju?

Borgarbókasafnið I Menningarhús Gerðubergi
Miðvikudaginn 24. janúar kl. 20-21.30

Vegur hamingjunnar er langur og felst hann að minnsta kosti í því að leggja stund á dyggðir og rækta tilfinningar sínar, auk þess að efla skynsemina. Hún er spunnin úr aðstæðum sérhvers manns og kjarki til að taka ákvarðanir um líf sitt. Heimspekingar hafa rannsakað hamingjuna frá mörgum hliðum. En hvað með svefn? Hafa svefn, árvekni, athygli og einbeiting áhrif á hamingjuna?

Allir stefna leynt eða ljóst að hamingju, en hvernig nálgumst við hamingjuna? Gunnar Hersveinn rithöfundur og heimspekingur og Erla Björnsdóttir sálfræðingur ræða hamingjuna út frá ýmsum sjónarhornum, m.a. út frá heilsu, hegðun og viðhorfi í Borgarbókasafninu Gerðubergi miðvikudaginn 24. janúar kl. 20.

Heimspekikaffið í Gerðubergi hefur verið vinsælt undanfarin misseri, en þar er fjallað á mannamáli um hvers konar líferni er eftirsóknarvert. Gestir taka virkan þátt í umræðum og hafa margir fengið gott veganesti eftir kvöldin og hugarefni til ræða frekar. 

Gunnar Hersveinn hefur umsjón með heimspekikaffinu og leiðir gesti í lifandi umræðu um málefnin. Hann hefur m.a. skrifað bókina Gæfuspor - gildin í lífinu. Erla Björnsdóttir er doktor í líf-og læknavísindum frá Háskóla Íslands en í doktorsnámi sínu rannsakaði Erla m.a. andlega líðan og lífsgæði út frá svefnleysi og kæfisvefni. Erla rekur vefinn betrisvefn.is og er einn af rekstraraðilum Sálfræðiráðgjafarinnar og skrifaði bókina Svefn sem JPV gaf út á liðnu ári.

Nánari upplýsingar 

Hólmfríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri viðburða
holmfridur.olafsdottir [at] reykjavik.is
S: 411-6114

Dagsetning viðburðar: 

Miðvikudagur, 24. janúar 2018

Staðsetning viðburðar: 

Viðburður hefst: 

20:00

Viðburður endar: 

22:00